Ólafur Dýrmundsson gerður heiðursfélagi í  Dýraverndarsambandi Íslands

26. mars 2025

Ólafur Dýrmundsson var gerður heiðursfélagi í Dýraverndarsambandi Íslands á 111 ára afmælishátíð sambandsins 23. mars. Ólafur hefur verið öflugur málsvari dýra áratugum saman og lengi starfað innan Dýraverndarsambandsins, meðal annars sem formaður á árunum 2007–2012. Það er sönn ánægja og mikill heiður fyrir stjórn Dýraverndarsambandsins að gera Ólaf að heiðursfélaga fyrir mikilsvert framlag sitt fyrir sambandið og fyrir velferð dýra í landinu.

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá Lindu Karen Gunnarsdóttur, formann Dýraverndarsambandsins, fara yfir ævi og störf Ólafs. Hún naut svo aðstoðar Maríu Lilju Tryggvadóttur úr stjórn sambandsins við að afhenda honum viðurkenninguna. Loks sagði Ólafur nokkur orð. 

Um Ólaf Dýrmundsson, heiðursfélaga í Dýraverndarsambandi Íslands

Ólafur Dýrmundsson fæddist í Reykjavík árið 1944 og var á sumrin í sveit í Hnausum í Húnaþingi hjá skyldfólki sínu sem barn fram á unglingsár. Þar kynntist hann ýmiss konar dýrum og fékk mikinn áhuga á sveitabúskap. Hann varð fjárbóndi í Vogahverfinu í Reykjavík 13 ára gamall og byggði yfir. Hann hirti kindur í tómstundum alla vetur á skólaárunum í Vogaskóla og Menntaskólanum í Reykjavík og var einnig með hænsni um skeið.

Ólafur er enn með kindur og heldur þær í fjárhúsi sínu í bakgarðinum í Seljahverfinu og er einn af síðustu fjárbændunum í Reykjavík.

Um 1960 gerðist hann áskrifandi að Dýraverndaranum og við lestur hans fékk Ólafur sem unglingur nokkur kynni af dýraverndarmálum hér á landi og einnig nokkuð í Wales þar sem hann var við nám í búvísindum frá 1966-1972.

Ólafur starfaði um rúmlega 40 ára skeið við málefni landbúnaðar, fyrst á Hvanneyri og síðan í Bændahöllinni hjá Bændasamtökum Íslands. Þar kom hann töluvert að dýraverndarmálum og sat meðan annars í nefnd sem samdi fyrstu lögin um búfjárhald.

Ólafur liðsinnti forvera DÍS, Sambandi dýraverndunarfélaga Íslands við að varðveita húseign þess að Smáratúni á Selfossi um 1980. Húseignin var arfur eftir Jón Konráðsson kennara og forstöðumann Sauðfjárverndarsjóðsins sem Dýraverndarsambandið varðveitir og sat Ólafur lengi í stjórn sjóðsins.

Ólafur sat einnig lengi sem fulltrúi DÍS í Dýraverndarráði þegar málaflokkur dýravelferðar var hjá Umhverfisstofnun og síðar um skeið í Fagráði um velferð dýra.

Kynni Ólafs af margvíslegri umfjöllun um dýravelferð frá samtökunum Compassion in World Farming, IFOAM Alþjóðasamtökum lífrænna landbúnaðarhreyfinga og Búfjárræktarsambandi Evrópu urðu m.a. til þess að Bændasamtök Íslands fólu honum umsjón með forðagæslu- og búfjáreftirlitskerfinu í landinu um langt árabil, þangað til Matvælastofnun tók við eftirliti með velferð dýra árið 2014.

Ólafur var formaður Dýraverndarsambands Íslands á árunum 2007-2012. Hann vann ötullega að endurreisn DÍS á þessum árum sem reyndist sambandinu dýrmætt upphaf en það hafði þá verið í lægð um tíma. Hann var einnig formaður Norræna Dýravelferðarráðsins á árunum 2008-2011 sem er samstarfsráð helstu dýravelferðarsamtaka á Norðurlöndunum.

Ólafur átti enn þátt í að verja húseign í eigu DÍS á þessum tíma, í Víðidal í Reykjavík, sem áður hýsti fyrsta dýraspítala landsins, Dýraspítala Watsons, sem bæði félagasamtök og einstaklingar reyndu að komast yfir. Húsnæðið var selt árið 2009 og varð DÍS þess vegna mögulegt að kaupa húsnæði á Grensásvegi árið 2019 sem einnig hefur verið selt og styrkti þetta stoðir sambandsins.

Previous
Previous

Dýraverndarsamband Íslands lýsir yfir áhyggjum af hávaða á sýningum með hross

Next
Next

Upptökur af 111 ára afmælishátíð