Dýraverndarsamband Íslands lýsir yfir áhyggjum af hávaða á sýningum með hross

29. mars 2025

Dýraverndarsamband Íslands lýsir yfir áhyggjum af þeirri þróun sem er að eiga sér stað innan hestaíþróttarinnar varðandi sýningar á hrossum. Algengara er orðið að tónlistarfólk sé látið spila á meðan hross eru sýnd og áhorfendur hvattir til að taka undir með fagnaðarlátum. Áhersla á sýningum með hross á ekki að fyrst og fremst að vera skemmtun gesta heldur einnig á velferð hrossanna sem koma fram. DÍS telur nauðsynlegt að brugðist verði við þessari þróun. 

Hestar eru flóttadýr sem í eðli sínu forðast hávaða og hafa jafnframt umtalsvert betri heyrn en manneskjur. Þau geta því upplifað mikla streitu og vanlíðan í aðstæðum þar sem er hávaði. Þó hrossum sé kennt að afbera slíkar aðstæður þýðir það ekki að hrossunum líði vel. Það er almenn vitneskja að dýrum líður gjarnan illa í hávaða og að þeim sé því hlíft við slíku eins og unnt er. Öll nýting dýra á að byggja á þeirri forsendu að dýrum sé forðað frá óþarfa álagi og streitu, hross eru þar engin undantekning.

DÍS hvetur þau sem standa fyrir reiðhallarsýningum, einstaklinga og hestamannafélög, að stilla hávaða í hóf, hvort sem það er vegna tónlistar eða frá áhorfendum.

Velferð dýra þarf ávallt að vera í fyrirrúmi og með það í huga verða að aðstæður sýninga á hrossum að vera í samræmi við þeirra eðli sem flóttadýra.

Til baka

Previous
Previous

Stöðvum blóðmerahald: Ráðherra afhent áskorun

Next
Next

Ólafur Dýrmundsson gerður heiðursfélagi í  Dýraverndarsambandi Íslands