Stöðvum blóðmerahald: Ráðherra afhent áskorun
31. mars 2025
Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra tók í dag á móti 6.600 undirskriftum einstaklinga sem taka undir ákall Dýraverndarsambands Íslands að stöðva blóðmerahald í eitt skipti fyrir öll hér á landi.
„Ísland er eitt af örfáum ríkjum sem leyfir blóðmerahald. Blóðmerahald er fullkomin tímaskekkja og dýraníð. Ég vona að ráðherra hlusti á þessar nærri sjö þúsund raddir sem standa á bakvið ákall Dýraverndarsambandsins og breyti þessu með okkur,“ segir Ágúst Ólafur Ágústsson, ritari stjórnar Dýraverndarsambandsins.
Ágúst Ólafur afhenti atvinnuvegaráðherra undirskriftirnar ásamt Andrési Inga Jónssyni, framkvæmdastjóra DÍS.