Stöðvum blóðmerahald!
Dýraverndarsamband Íslands stendur þessa dagana fyrir undirskriftasöfnun til að þrýsta á stjórnvöld að stöðva blóðmerahald fyrir fullt og allt. Með því að skrifa undir á askorun.dyravernd.is getur þú lagst á árarnar með okkur í baráttunni fyrir aukinni velferð dýra.
Blóðmerahald er starfsemi þar sem blóð er tekið úr fylfullum hryssum til vinna úr því hormón til framleiðslu á frjósemislyfi fyrir dýr. Lyfið er notað fyrir dýr í verksmiðjubúskap, aðallega gyltur, svo þau eignist fleiri afkvæmi og oftar en þeim er eðlilegt.
Starfsemin er hvergi stunduð í Evrópu, nema á Íslandi. Magn og tíðni blóðtöku og meðferð á hryssunum í blóðtökunni stríðir gegn velferð þeirra.
Í blóðmerahaldinu er yfirleitt um að ræða stóra hópa hryssa sem eru lítið tamdar og óvanar því að vera í snertingu við fólk. Þegar þessar hryssur eru reknar á blóðtökubás og bundnar þar fastar verða þær eðlilega mjög hræddar. Í þessum aðstæðum reyna hryssurnar að berjast um eða flýja til að komast undan, en þegar það gengur ekki gefast þær upp og láta meðferðina yfir sig ganga. Svona meðferð á dýrum er grimm og algjörlega í andstöðu við markmið laga um velferð dýra.
Blóðmerahald er dýraníð og á að banna með lögum.
Góð dýravelferð á að vera sjálfsagður hluti af nútímasamfélagi. Þar sem velferð dýra er ekki tryggð þarf að gera úrbætur. Þegar enginn möguleiki er á úrbótum til að tryggja mannúðlega meðferð dýra þarf einfaldlega að afleggja starfsemina. Ef framkvæmdin væri r í samræmi við alþjóðleg viðmið um blóðtöku úr dýrum yrði starfseminni sjálfhætt. Dýraverndarsamband Íslands stendur nú fyrir undirskriftasöfnun þar sem skorað er á stjórnvöld að banna blóðmerahald hér á landi.
Við trúum því staðfastlega að velferð dýra sé grundvallarþáttur í heilbrigðu samfélagi. Ef þú vilt hjálpa Dýraverndarsambandinu að knýja fram breytingar, þá geturðu bætt nafninu þínu á listann. Hægt er að nálgast undirskriftasöfnunina á vefnum askorun.dyravernd.is.