Viðbragðsleysi sýnir mikilvægi þess að færa eftirlit með dýravelferð frá Matvælastofnun

19. febrúar 2025

Dýraverndarsamband Íslands leggst eindregið gegn þeim viðsnúningi í málefnum dýravelferðar sem birtist í tillögu um breytta skipan ráðuneyta sem er til umfjöllunar á Alþingi. Sú stefna var tekin við myndun núverandi ríkisstjórnar að færa dýravelferð undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, en í tillögunni kemur fram að ráðgert sé að hætta við þá tilfærslu.

Nýlegar fréttir af viðbragðsleysi Matvælastofnunar þegar tilkynnt var um folald í neyð eru nýjasta dæmið af fjölmörgum um mikilvægi þess að gera stórar kerfisbreytingar í þágu velferðar dýra. Dýraverndarsambandið telur gríðarlega mikilvægan hluta af þeim úrbótum vera að gera stjórnsýslu dýravelferðar óháða stjórnsýslu matvælaeftirlits. Þannig væru send skýr skilaboð um að málefni dýraverndar og dýravelferðar væru tekin alvarlega og væru hluti af forgangsmálum nýs þings og nýrrar ríkisstjórnar – í takt við nýja tíma.

Þetta kemur fram í umsögn sem Dýraverndarsambandið skilaði til Alþingis, þar sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er hvött til að standa með velferð dýra og færa málaflokk dýravelferðar frá Matvælastofnun.

Til baka

Previous
Previous

Stöðvum blóðmerahald!

Next
Next

Dýr þurfa skjól á hættutímum