Nýtt merki Dýraverndarsambands Íslands

11. mars 2025

Dýraverndarsamband Íslands hefur tekið í notkun nýtt merki og mun á næstunni þróa útlit á öllum miðlum sambandsins í takt við það. Nýja merkið er hannað af Stefáni Yngva Péturssyni. Styngvi er mikill dýraverndunarsinni og hefur sem hönnuður lagt ríka áherslu á verkefni þar sem barist er fyrir betri framtíð fyrir náttúru, dýr og mannfólk. Stjórn Dýraverndarsambandsins fannst því samstarfið eiga mjög vel við verkefni DÍS.

Merkið sýnir heimskautarefinn, eina landspendýrið sem kom sér til Íslands án aðstoðar mannfólks, og leggur áherslu á einstaka íslenska náttúru í sögu og samtíð. Litaval merkisins er innblásið af eldi og ís, þessum mótandi frumöflum í náttúru Íslands. Blái liturinn er sami djúpi liturinn og er notaður í íslenska fánanum, en hann endurspeglar haf og fjöll og vekur traust. Appelsínuguli liturinn stendur fyrir mikilvægi sambands okkar við dýr og náttúru, sem við berum að virða.

Mikill vöxtur hefur verið í starfi Dýraverndarsambandsins á síðustu misserum, meðal annars vegna þess stóra hóps Dýraverndara sem styrkja félagið með mánaðarlegu framlagi. Með nýju og fersku útliti vonast stjórn DÍS til þess að geta nýtt enn fleiri möguleika til að vekja athygli á því mikilvæga starfi sem fram fer á vegum sambandsins.

Til baka

Previous
Previous

Afmælishátíð Dýraverndarsambands Íslands

Next
Next

Stöðvum blóðmerahald!