Dýr þurfa skjól á hættutímum
21. janúar 2024
Dýraverndarsamband Íslands hefur óskað eftir fundi með dómsmálaráðherra um nauðsyn þess að styrkja stöðu dýra í almannavarnaástandi. DÍS hefur kallað eftir því að dýr séu skilgreind sérstaklega í lögum um almannavarnir og þeim bjargað strax og fólki hefur verið komið í öruggt skjól. Nýleg dæmi sýna svo ekki verður um villst að staða dýra á hættutímum er ekki nógu góð.
Þessi slæma staða kom skýrt fram í fréttum þess efnis að nokkur fjöldi hrossa hafi verið skilinn eftir innan rýmingarsvæðis vegna snjóflóðahættu í Neskaupstað 19. janúar sl. Hefur DÍS kallað eftir upplýsingum frá þeim aðilum sem báru ábyrgð á því að skipuleggja viðbrögð við snjóflóðahættunni til að sjá hvernig megi gera betur. Sérstaklega óskar DÍS eftir því að vita hvernig eigendum hafi verið liðsinnt ef þeir áttu í vandræðum með að koma hrossum sínum í skjól utan rýmingarsvæðis og hvort einhverjir eigendur hafi ekki sýnt vilja til að flytja hross sín af svæðinu og hvernig hafi verið tekið á þeirri stöðu.
Ástandið á Austurlandi er því miður fjarri því að vera einsdæmi. Skemmst er að minnast þess þegar mikill fjöldi dýra varð eftir við rýmingu Grindavíkur í nóvember 2023 og svo aftur þegar gos hófst á svæðinu í janúar og maí 2024. Þurfti samhent átak fjölda dýraverndarsamtaka til að koma þeim af hættusvæðinu, þar sem verulega skorti upp á viðbrögð stjórnvalda til að koma þeim til bjargar.
Til baka