Fundur DÍS með ríkislögreglustjóra

F.v. Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, Linda Karen Gunnarsdóttir formaður DÍS, Ágúst Ólafur Ágústsson stjórnarmaður í DÍS, Anna Berg Samúelsdóttir stjórnarmaður í DÍS, María Lilja Tryggvadóttir stjórnarmaður í DÍS, Kristín Alda Jónsdóttir lögfræðingur hjá embætti ríkislögreglustjóra.

15. október 2024

Fimmtudaginn 10. október áttu fulltrúar úr stjórn Dýraverndarsambandsins fund með Sigríði Björk Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra um viðbrögð og ferla þegar lögregla fær tilkynningu um dýr í neyð. 

Öllu máli skiptir að dýr hljóti þá vernd sem þau hafa í lögum og hefur lögregla þar mikilvægt hlutverk sem viðbragðsaðili. 

Engin bakvakt hjá Matvælastofnun vegna dýravelferðarmála
Matvælastofnun (MAST) fer með eftirlit með dýravelferð í landinu. Símatími MAST er aðeins í 3 klukkustundir á dag á virkum dögum svo almenningur verður að leita til lögreglu utan þess tíma séu dýr í neyð. DÍS benti á að það væri óviðunandi að engin bakvakt sé fyrir hendi hjá MAST þegar stofnunin er lokuð sem lögregla getur leitað til þegar þeim berast upplýsingar frá almenningi um dýr í neyð. Því fer oft svo að dýr fá ekki þá vernd sem þeim ber samkvæmt lögum þar sem ekki er brugðist við þeim til handa. 

Nauðsynlegt er að öll lögregluumdæmin þekki verkferla í dýravelferðarmálum svo hægt sé að koma málum í rétt ferli hverju sinni. Í vor fann vegfarandi dána hvolpa í poka í Mosfellsbæ og var það tilkynnt til lögreglu, en skv. viðtali við forstjóra MAST í fjölmiðlum hafði engin tilkynning borist stofnuninni, en það var hlutverk lögreglu þar sem tilkynnandi var búinn að hafa samband við lögreglu vegna málsins.

Ákeyrslur á dýr á vegum landsins
Ákeyrslur á dýr eru alvarlegur vandi hér á landi, m.a. er ekið á hundruði sauðfjár árlega vegna lausagöngu þar sem mörg dýr kveljast. Lögregla hafi almennt ekki þekkingu á hvernig skuli aflífa dýr eða hafi byssu til að aflífa dýr og flókið getur verið að fá liðsinni þar sem ekki eigi allir bændur eða aðrir aðilar í nærumhverfinu byssu eða hafi tilskilið byssuleyfi. Dýr sem keyrt er á líða því oft kvalafullan og hörmulegan dauðdaga sem þau eiga að vera varin fyrir. DÍS benti á að nauðsynlegt væri að þetta sé skoðað innan lögreglunnar.

Ríkislögreglustjóri tók vel í þær ábendingar sem bárust frá DÍS og mun eiga samráð við lögregluumdæmin, matvælaráðureyti og Matvælastofnun í kjölfar fundarins og lagði jafnframt til að eiga annan fund með sambandinu fljótlega.

Til baka

Previous
Previous

Áskorun stjórnar Dýraverndarsambands Íslands til forsætisráðherra

Next
Next

Fundur DÍS með matvælaráðherra