Áskorun stjórnar Dýraverndarsambands Íslands til forsætisráðherra

26. október 2024

Í gær föstudaginn 25. október kom það fram hjá forsætisráðherra að umsókn um leyfi til veiða á langreyðum hafi borist matvælaráðuneytinu. Ráðherra sagði við fréttamenn að afloknum ríkisstjórnarfundi að til greina kæmi að afgreiða umsóknina á tímabili starfsstjórnarinnar og þá mögulega fyrir næstu Alþingiskosningar. Í fyrradag bárust þær fréttir að helsti stuðningsmaður hvalveiða á Alþingi, Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokks, hafi verið valinn sérlegur fulltrúi forsætisráðherra í matvælaráðuneytinu. Í viðtali í Bítinu á Bylgjunni þann 25. nóvember sagði Jón Gunnarsson það koma til greina að afgreiða umsóknina um hvalveiðar nú á næstunni. Umsókn Hvals hf. um veiðar á langreyðum er ótímabundin en ellegar til 5 – 10 ára. Hér gæti því verið um að ræða skuldbindandi og stefnumarkandi ákvörðun ekki aðeins fyrir næstu ríkisstjórn heldur þær ríkisstjórnir sem koma þar á eftir í áratug eða lengur héðan í frá.

Umsóknir hvalveiðifyrirtækja um veiðileyfi, eins og Hvals hf, hafa alla jafna verið afgreiddar á sama ári og veiðum er ætlað að hefjast og þá á fyrsta eða öðrum ársfjórðungi þess sama árs. Það væri óeðlileg og óvönduð stjórnsýsla að hlaupa nú til á tíma minnihlutastarfsstjórnar, með afar takmarkað umboð, og binda hendur næstu ríkisstjórnar og ríkisstjórna framtíðarinnar í jafn umdeildu og hápólitísku máli og hvalveiðarnar eru. DÍS bendir á að starfshópur forsætisráðherra er nú að störfum þar sem metnir eru hagsmunir Íslands og alþjóðlegar skuldbindingar þegar hvalveiðar eru annars vegar og mikilvægt að bíða þeirrar niðurstöðu áður en frekari ákvarðanir eru teknar.

Dýraverndarsamband Íslands skorar á Bjarna Benediktsson forsætisráðherra að bíða með ákvörðun um hvalveiðar þar til niðurstaða starfshóps forsætisráðherra um  hvalveiðar liggur fyrir og að ný ríkisstjórn með meirihlutastuðningi Alþingis hefur tekið við að afloknum kosningum.

Stjórn Dýraverndarsambands Íslands

Til baka

Previous
Previous

Pallborðsumræður með stjórnmálaflokkum um dýravelferðarmál

Next
Next

Fundur DÍS með ríkislögreglustjóra