Dýraverndarsamband Íslands: síungt félag

20. mars 2025

Það lét ekki mikið yfir sér, fundarboðið sem birtist á forsíðu Morgunblaðsins 13. júlí 1914, en tilefnið var „Dýraverndunarfélags-stofnun“ sem hafði verið í undirbúningi um nokkurt skeið. Þörfin var mikil og hefur haldist svo alla tíð síðan sem endurspeglast í því að Dýraverndarsamband Íslands nær því bráðum að verða 111 ára. Krafturinn hefur verið stígandi í starfi félagsins á undanförnum misserum og við viljum fagna þessari löngu og farsælu sögu með því að hittast á afmælishátíð í Salnum í Kópavogi sunnudaginn 23. mars kl. 14–16.

Leiðandi í úrbótum frá upphafi

Framsýni þeirra sem stofnuðu Dýraverndarsambandið þetta mánudagskvöld í byrjun síðustu aldar verður seint fullþökkuð. Brýnasta verk hins nýstofnaða félags var að koma á lögum um dýravernd. Það náðist í gegn þegar Alþingi samþykkti lög sem byggðu á frumvarpi sem var unnið innan Dýraverndarsambandsins í nóvember 1915. Mögulega hefur auðveldað verkið að fyrsti formaður félagsins var Tryggvi Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður og útgefandi tímarits um velferð dýra til langs tíma.

Auk Tryggva má nefna frumkvöðlastarf og þrautseigju Ingunnar Einarsdóttur, húsfreyju á Bjarmalandi, sem hafði forgöngu um ýmsa metnaðarfulla uppbyggingu starfsins á fyrstu árum félagsins. Eitt fyrsta verkefni Ingunnar var að beita sér fyrir því að félagið keypti landareign árið 1918 eftir að Tryggvi Gunnarsson hafði arfleitt félagið að stórum hluta eigna sinna. Þetta var jörðin Tunga, sem stóð nálægt því sem nú eru gatnamót Kringlumýrarbrautar, Suðurlandsbrautar og Laugavegar. Þar var komið upp aðstöðu fyrir skepnur aðkomufólks sem almennt kom ríðandi til höfuðstaðarins og oft voru þau látin hírast í portum meðan eigendurnir sinntu erindum í bænum. Þar var líka tekið við vanhirtum dýrum og síðar þróaðist húsnæðið í vísi að fyrsta dýraspítala landsins.

Þá lagði Ingunn til að félagið gæfi út tímarit í þágu málefnisins, en fyrsta tölublað Dýraverndarans kom út þann 15. mars 1915. Óhætt er að segja að Dýraverndarinn hafi slegið í gegn. Fyrstu árin voru hátt í 4000 áskrifendur að blaðinu og þær eru ófáar sögurnar af því hvernig blaðið var lesið spjaldanna á milli í sveitum landsins. Þessu mikilvæga fræðsluhlutverki sinnti félagið með því að gefa blaðið óslitið út í nærri sjö áratugi – og hefur þannig eflaust haft mikil áhrif á afstöðu landsmanna til velferðar dýra.

Þegar litið er yfir fyrstu verk Dýraverndarsambandsins skín ekki einungis í gegn hversu mikilvæg þau voru, heldur hvernig þau brugðust hárrétt við því ástandi sem var í samfélagi þess tíma. Það vantaði lagaramma til að tryggja vernd dýra, skjólshús yfir síaukinn fjölda dýra sem dvöldu tímabundið í Reykjavík og fræðslu til almennings. Félagið einhenti sér í öll þessi verk – og fleiri til.

Mikið verk framundan

Sem formaður Dýraverndarsambands Íslands þykir mér mikill heiður að feta í fótspor svo ótalmargra eldhuga sem hafa verið málsvarar dýra síðustu 111 árin. Það fylgir því líka mikil ábyrgð – það skiptir máli að félagið þróist með samfélaginu, berjist fyrir úrbótum þar sem þeirra er þörf og sæki sér sífellt meiri styrk til að geta verið öflugari málsvari. Staðreyndin er nefnilega sú að þó að margt hafi áunnist á öllum þessum tíma, þá er verkið framundan ennþá gríðarmikið.

Síðustu misseri hefur Dýraverndarsamband Íslands til dæmis lagt mikla áherslu á baráttuna gegn blóðmerahaldi. Það er atvinnugrein sem hefur vaxið hröðum skrefum á undanförnum árum, en þegar eðli starfseminnar hefur verið dregið fram í dagsljósið dylst engum að um er að ræða meðferð á dýrum sem er bæði tímaskekkja og dýraníð.

Þá hefur Dýraverndarsambandið beitt sér fyrir því að ólöglegar og ómannúðlegar halaklippingar á grísum verði stöðvaðar og ítrekað kallað eftir því að eftirlit með velferð dýra verði sjálfstætt frá hagsmunum matvælaframleiðslu, en við sjáum allt of mörg dæmi þess að þessir hagsmunaárekstrar verði á kostnað dýranna í núverandi kerfi. Auk þess má nefna baráttuna gegn hvalveiðum sem hefur fengið mikinn meðbyr.

Öflugari í þágu dýravelferðar

Ég er bara búin að nefna brot af þeim málum sem Dýraverndarsamband Íslands hefur lagt áherslu á síðustu árin og ennþá fleiri mál eru framundan sem okkur langar að bæta við verkefnalista félagsins. Með stórum hópi Dýraverndara sem styðja okkur með mánaðarlegum framlögum réðum við nýlega fyrsta framkvæmdastjóra félagsins, þannig að það er mikill hugur í okkur. Verkefnin eru ærin, en við erum tilbúin að stíga næstu stóru skref í þágu dýra.

Þessi grein eftir Lindu Karen Gunnarsdóttur, formann Dýraverndarsambands Íslands, birtist í Morgunblaðinu 20. mars 2025.

Til baka

Previous
Previous

Upptökur af 111 ára afmælishátíð

Next
Next

Afmælishátíð Dýraverndarsambands Íslands