Yfirlýsing DÍS vegna ákvörðunar starfandi matvælaráðherra að leyfa hvalveiðar
5. desember 2024
Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) mótmælir harðlega ótímabærri ákvörðun um hvalveiðar til næstu fimm ára.
Í dag veitti Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og matvælaráðherra í starfsstjórn leyfi til veiða á langreyðum og hrefnum til næstu fimm ára. Dýrarverndarsamband Íslands hefur vegna þessa ákveðið að beina kvörtun til umboðsmanns Alþingis þar sem sambandið telur um hreina valdníðslu að ræða.
Samkvæmt skráðum og óskráðum reglum stjórnskipunarréttar eru valdheimildir starfsstjórnar takmarkaðri en hefðbundinnar ríkisstjórnar. Starfsstjórn eftir lausnarbeiðni á ekki og má ekki, að mati DÍS, taka jafn afdrifaríka ákvörðun í hápólitísku deilumáli.
Í bók Gunnars G. Schram um stjórnskipunarrétt segir m.a.:
,,Starfsstjórnin hefur í raun og veru fengið lausn en sér áfram að beiðni forseta um dagleg stjórnarstörf svo landið sé ekki með öllu stjórnlaust”. Þá segir að “ráðherrar gegni ekki lengur pólitísku hlutverki með sama hætti og sem regluleg ríkisstjórn”.
Almennt er því talið að ráðherra sé ekki heimilt að taka mikilvægar pólitískar ákvarðanir nema þá að svo standi á að þær þoli enga bið. Slíkt er ekki um að ræða hér. Að mati DÍS blasir við að með þessari ákvörðun hefur settur matvælaráðherra í starfsstjórn farið út fyrir valdmörk sín með því að heimila hvalveiðar til næstu fimm ára. Til viðbótar telur sambandið að meðalhófsregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin með útgáfu leyfis til svo langs tíma.
Þá má einnig minna á að skilyrði rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar hefur ekki verið fullnægt að mati DÍS. Beðið er niðurstöðu starfshóps forsætisráðherra um framtíð hvalveiða og slík veiðileyfi hafa gjarnan verið veitt á fyrsta ársfjórðungi á því upphafsári sem leyfið nær til en ekki í desember.
Hvalveiðar eru ákaflega umdeilt mál á Íslandi og óánægjan með þær nær langt út fyrir landsteinanna. Þetta er því hagsmunamál sem varðar marga aðra en aðeins þá sem að þessum veiðum koma með einum eða öðrum hætti. Það er óboðleg stjórnsýsla að umboðslítill ráðherra taki svo afdrifaríka ákvörðun rétt eftir Alþingiskosningar og bindi þar með hendur næstu ríkisstjórna.
Þessari stjórnsýslu verður ekki lýst öðruvísi en sem hneykslanlegri og staðfestist með henni sú spilling sem afhjúpuð var á dögunum um hrossakaup forsætisráðherra og aðstoðarmanns hans.
Stjórn Dýraverndarsambands Íslands
Til baka