Sex af níu flokkum styðja bann við blóðmerahaldi og hvalveiðum

F.v. Sigurður Örn Hilmarsson (Sjálfstæðisflokkur), Þórunn Sveinbjarnardóttir (Samfylkingin), Rán Reynisdóttir (Sósíalistaflokkur Íslands), Heiðbrá Ólafsdóttir (Miðflokkurinn), Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir (Píratar), Aðalsteinn Leifsson (Viðreisn), Inga Sæland (Flokkur fólksins), Magnea Gná Jóhannsdóttir (Framsókn), Finnur Andrason (Vinstri grænir).

8. nóvember 2024

DÍS stóð fyrir opnum fundi með fulltrúum stjórnmálaflokkanna fimmtudaginn 7. nóvember í Iðu bókakaffi. Fulltrúar flokkanna voru inntir já-nei svara um stefnu flokkanna varðandi hvalveiðar, blóðmerahald og búfjáreftirlit.

Hvalveiðar
Sex flokkar sem bjóða fram til Alþingis styðja að hvalveiðilögin frá 1949 verði numin úr gildi og hvalveiðar bannaðar með lögum. Það eru Samfylkingin, Sósíalistar, Flokkur fólksins, Píratar, Viðreisn og Vinstri græn, en þrír flokkar styðja ekki hvalveiðibann. Það eru Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og Miðflokkurinn. Allir flokkar nema Framsókn og Miðflokkur studdu að ákvörðun um hugsanlegt hvalveiðileyfi ætti að bíða nýrrar ríkisstjórnar og verði ekki tekin af hálfu umboðslítillar starfsstjórnar en athygli vakti að fulltrúi Sjálfstæðisflokks sat hjá. 

Blóðmerahald
Allir flokkar styðja að blóðmerahald verði bannað með löggjöf fyrir utan Framsókn og Miðflokkinn sem styðja það ekki og Sjálfstæðisflokkurinn sat sömuleiðis hjá varðandi blóðmerahaldið.

Búfjáreftirlit
Góðar umræður sköpuðust um löggjöf og eftirlit með dýravelferð. Athygli vekur að allir flokkar nema Miðflokkurinn styðja að eftirlit með velferð dýra verði aðskilið frá Matvælastofnun og komið fyrir hjá annarri stofnun eins og Dýraverndarsamband Íslands leggur áherslu á. 

Fram kom rík gagnrýni á núverandi fyrirkomulag eftirlits með dýravelferð frá vel flestum fulltrúum flokkanna á fundinum sem og vilji til að styðja mun betur við þá bændur sem missa tímabundna hæfni til að sinna bústörfum og sem bitnar gjarnan alvarlega á búfénaði. 

Þeir fulltrúar níu stjórnmálaflokka sem mættu voru:

Flokkur fólksins - Inga Sæland oddviti í RS-kjördæmi
Framsókn - Magnea Gná Jóhannsdóttir 3. sæti í RS-kjördæmi
Miðflokkurinn - Heiðbrá Ólafsdóttir 2. sæti í S-kjördæmi
Píratar - Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir oddviti í NV-kjördæmi
Samfylkingin - Þórunn Sveinbjarnardóttir 3. sæti í SV-kjördæmi
Sjálfstæðisflokkurinn - Sigurður Örn Hilmarsson 4. sæti RS-kjördæmi
Sósíalistaflokkur Íslands - Rán Reynisdóttir oddviti í S-kjördæmi
Viðreisn - Aðalsteinn Leifsson 3. sæti í RS-kjördæmi
Vinstri grænir - Finnur Andrason oddviti í RN-kjördæmi

Spurt var:

Styður þú og flokkur þinn það að hin úreltu hvalveiðilög frá 1949 verði numin úr gildi og ný lög sett sem banni hvalveiðar við Ísland? 
Já:  Samfylkingin, Sósíalistar, Píratar, Viðreisn, Flokkur fólksins, Vinstri grænir.
Nei: Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Framsóknarflokkurinn.

Styður flokkurinn þinn að ákvörðun um hugsanlegt hvalveiðileyfi bíði nýrrar ríkisstjórnar en verði ekki tekin af hálfu umboðslítillar starfsstjórnar?
Já:  Samfylkingin, Sósíalistar, Píratar, Viðreisn, Flokkur fólksins, Vinstri grænir.
Nei: Framsókn, Miðflokkurinn.
Sjálfstæðisflokkur tekur ekki afstöðu.

Styður flokkurinn þinn að sett verði löggjöf sem banni blóðmerahald á Íslandi? 
Já:  Samfylkingin, Sósíalistar, Píratar, Viðreisn, Flokkur fólksins, Vinstri grænir.
Nei: Framsókn, Miðflokkurinn.
Sjálfstæðisflokkur tekur ekki afstöðu.

Einnig komu spurningar úr sal og voru þessar eftirfarandi:

Styðja ykkar flokkar að matvælaeftirlit verði á höndum einnar stofnunar og eftirlit með dýravelferð á höndum annarar?
Já:  Sjálfstæðisflokkur, Samfylkingin, Sósíalistar, Píratar, Viðreisn, Flokkur fólksins, Framsóknarflokkurinn, Vinstri grænir.
Nei: Miðflokkurinn.

Myndi ykkar flokkur styðja bann við loðdýraeldi?
Já:   Samfylkingin, Sósíalistar, Píratar, Viðreisn, Flokkur fólksins, Framsóknarflokkurinn, Vinstri grænir.
Nei: Framsókn, Miðflokkurinn.
Sjálfstæðisflokkur tekur ekki afstöðu.

Fundarstjóri var Ágúst Ólafur Ágústsson lög- og hagfræðingur og stjórnarmaður í DÍS.

Hér má horfa á fundinn í heild sinni:

Previous
Previous

Yfirlýsing HRFÍ og DÍS vegna ákvörðunar Icelandair að hætta innflutningi gæludýra með farþegaflugi

Next
Next

Pallborðsumræður með stjórnmálaflokkum um dýravelferðarmál